Félagsleg samskipti

Í þessum pistli (og e.t.v. fleirum síðar) ætlar undirrituð að fjalla aðeins nánar um þau einkenni einhverfurófsins sem skilgreina fötlunina, í þessu tilviki erfiðleika í félagslegum samskiptum.  Það skal tekið fram að þessi pistill er ekki fyrst og fremst fræðilegs eðlis heldur skal fremur líta á hann sem upplifun og reynslu foreldris þó vissulega byggi hann á því sem ég hef lesið mér til og lært um einhverfuna. Og auðvitað er rétt að árétta að engin tvö börn eru eins, ekki heldur einhverf börn.  Félagslegi þátturinn getur verið lítið vandamál hjá sumum en yfirþyrmandi hjá öðrum.

Einhverf börn eiga í erfiðleikum með félagsleg samskipti. 

Okkur hinum gæti hætt til að álykta sem svo að einhverfir vilji helst vera einir með sjálfum sér og dragi sig því í hlé.  Þetta er því miður ekki endilega rétt ályktun.  Það er rétt að muna að skapgerðareiginleikar hafa ekkert með einhverfu að gera. Einhverfir geta auðvitað verið einrænir en þeir geta einnig verið félagslyndir.  Erfiðleikarnr sem þeir lenda í þegar þeir eru í félagslegum samskiptum geta hins vegar valdið því að þeir draga sig í hlé, þeim líður of illa í samskiptunum og því er skárra að vera einn.  Það þýðir ekki að þeir séu glaðir og sáttir með einveruna og foreldrar einhverfra barna þekkja vel þann einmanaleika sem börnin þeirra eiga oft við að stríða.

Það er rétt að árétta það að einhverfurófsröskun er röskun á taugafræðilegum þroska sem m.a. veldur erfiðleikum við að læra, ekki bara námslega þætti heldur ekki síður hegðun, félagsleg samskipti og tjáningarform.  Flest börn læra af hvert öðru, hvað er við hæfi í samskiptum, hvenær á maður að grípa fram í (helst aldrei!) og hvenær á að hlusta, að deila skoðunum, áhugamálum, tilfinningum. Einhverf börn þurfa að læra þetta sérstaklega, með því að vera sagt nákvæmlega hvað, hvenær, hvernig, við hverja.  Inn í þetta blandast erfiðleikar við að yfirfæra á nýjar aðstæður (t.d. þó barnið sé búið að ná því að maður grípi ekki fram í við ákveðnar tegundir samskipta þá áttar það sig ekki á því að þessi "regla" eigi líka við í öðrum aðstæðum).  Það sem gerir málið enn flóknara fyrir einhverfu börnin er annar þáttur einhverfueinkennanna, þ.e. þráhyggja og árátta. Til að mynda gerir það samskipti við önnur börn erfið þegar einhverfa barnið er hugfangið af einhverri ákveðinni teiknimyndapersónu og tekur ekki annað í mál en að leika þann karakter í öllum leikjum.  Eins og þetta væri ekki nóg má ekki gleyma því að einhverf börn eiga við skynjunarvanda að etja líka, þau virðast heyra t.d. hljóð á annan hátt, þannig að t.d. ærslin í hópleik hafa önnur og meiri áhrif á þau heldur en önnur börn og þau eiga erfiðara með að heyra fyrirmæli í t.d. þjálfara í knattspyrnuleik.

Öll þessi vandamál einhverfa barnsins valda því að það er mikil hætta á að það einangrist félagslega ef ekki er höfð gát á og þau fá ekki beina kennslu og þjálfun í félagslegum samskiptum. 

Lítill 7 ára drengur með einhverfu sagði að það væri leiðinlegt í skólanum.  "Það segja allir krakkarnir að ég sé ekkert fyndinn.  Samt er ég alltaf að reyna að vera fyndinn. Ég veit ekki hvað ég á að gera".

Börn eru hreinskilin og eru ekki mikið fyrir að hlæja kurteislega að misheppnuðum bröndurum og eru ekkert endilega að umgangast þá sem eru ekki þeim að skapi.  En hvað er þá til ráða?

Félagshæfnisögur geta hjálpað en gallinn við þær er yfirfærsluvandinn, það þarf dálítið margar félagshæfnisögur til að geta tekið á öllum hugsanlegum samskiptavandamálum.  Hlutverkaleikur og umræður geta hjálpað til en foreldrar eru gjarnan í þeirri stöðu að þau sjá ekki samskiptin sem eiga sér stað í skóla eða leikskóla og eiga erfiðara með að ráðleggja barninu eftir á eða fyrirfram, og þá að því gefnu að einhverfa barnið ræði vandann heima fyrir sem er líka trúlega sjaldgæft. Því er hlutverk skólastofnana stórt að þessu leyti, bæði að kenna barninu í aðstæðunum og ekki síður að upplýsa hin börnin (og foreldra þeirra) um hvað er á seyði.

Einhverfa barnið getur nefnilega alveg lært að vera "fyndið" og skemmtilegt.  En það þarf að kenna því það. Og í þeirri kennslu þurfa allir að hjálpast að.

Guðrún Jónsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband