Frávik í málþroska og málnotkun

 

Seinkaður málþroski eða frávik í málþroska er oft á tíðum eitt af fyrstu einkennum sem koma fram hjá börnum á einhverfurófi. Þau virðast seinni en jafnaldrarnir til að ná málinu og virðast jafnvel tapa niður færni eða standa í stað um tíma. Þetta er þó ekki algilt og til að mynda er það skilyrði fyrir greiningarviðmiði fyrir Asperger heilkenni að ekki sé um marktæka seinkun á málþroska að ræða.  Þó hafa Asperger börn oft á tíðum óvenjulega málnotkun, s.s. sérviskuleg eða fullorðinsleg orð eða nýyrðasmíði.

 

Sum alvarlega einhverf börn tala ekki og er það ein af staðalímyndum sem margir hafa af einhverfum, þ.e. að þeir tjái sig ekki nema með hljóðum og atferli.  Með nútímaþekkingu hafa orðið miklar framfarir á kennslu og þjálfun einhverfra svo í flestum tilvikum ná einhverfir upp einhverri málnotkun þó hún sé stundum á takmarkaðri hátt en hjá jafnöldrum. Eins og með svo margt hjá börnum með einhverfurófsröskun, þá er hægt að kenna þeim það sem upp á vantar, það kostar bara meiri og tímafrekari vinnu en með þau börn sem "læra af sjálfu sér".

 

Frávíkin lýsa sér oft sem seinkun á málþroska sem kemur fram í fátæklegum orðaforða, framburðargöllum og eins og þau "finni ekki orðin":  Með markvissri málörvun og hjálp aðferða eins og Tákn með tali og ýmis konar táknmynda er hægt að vænta góðs árangurs hjá börnum með einhverfu.

 

Þó börnin séu komin með orðaforða og ekki teljandi framburðargallar til staðar (lengur) er oft á tíðum sérkennileg málnotkun til staðar.  Oft er rugl á persónufornöfnum (nota t.d. hann í stað ég, eða jafnvel þú í stað ég eða rugl á kyni (hann í stað hún og öfugt)).  Orðaröð í setningum getur verið brengluð og búin til ný orð sem ekki eiga sér grundvöll í venjulegu talmáli.  Það einkennir oft á tíðum raskanir á einhverfurófi að við þroskamat (greindarpróf) kemur fram marktækur munur á verklegri og munnlegri getu, þannig að verkleg geta er oft á tíðum mun hærri en munnleg geta sem dregur heildarniðurstöðuna niður.

 

Með talþjálfun, málörvun og öflugra kennsluaðferða eins og Táknum með tali, Board maker eða Pictogram mynda (þar sem barnið lærir smám saman að tengja orð við myndir af hlutum eða persónum) er hægt að vænta verulegs árangurs í flestum tilvikum.  Um leið minnka yfirleitt hegðunarerfiðleikar og tilfinningasveiflur þegar barnið getur tjáð sig um það sem á bjátar. 

 

Fátt er verra en það að skilja ekki fólkið sitt og geta ekki gert sig skiljanlegan.  Stundum er sagt að einhverf börn séu eins og útlendingar í eigin landi.

 

Guðrún J.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband