Þráhyggja og árátta

 

Sérkennileg áráttukennd hegðun eða þráhyggjuhegðun er þriðji yfirflokkur einkenna sem greiningarviðmið einhverfu standa saman af.  Áráttukennd hegðun er t.d. að framkvæma alltaf sömu hreyfingarnar aftur og aftur. Hin "dæmigerða" hegðun einhverfra eins og margir sjá hana fyrir sér, að sitja úti í horni og rugga sér fram og til baka eða slá höfðinu við er vissulega dæmi um þetta en sjaldnast er þó einhverfan á svo alvarlegu stigi.  Önnur vægari dæmi um svokallaða steglda hegðun er að veifa fingrum eða höndum, snúa sér í hringi, ganga á tánum eða hrista höfuðið. 

Önnur mynd af áráttuhegðun kemur stundum fram í einkennilegum leik með leikföng.  Þannig snýst leikur með bíla kannski ekki um að keyra bílinn með tilheyrandi látbragði heldur sitja börnin kannski og snúa einu hjóli bílsins í sífellu. Eða raða öllum bílunum upp í röð og jafnvel flokka þá eftir stærð, lit eða tegund.

Áráttuhegðunin getur einnig komið fram í stegldu tali sem felst þá stundum í því að endurtaka í sífellu sömu orðin eða setningarnar.  Stundum grípa einhverf börn (sem jafnvel tala lítið þess fyrir utan) á lofti setningar eða orð og tönnlast á þeim í tíma og ótíma.  Þessi hegðun getur líka verið í því formi að velta sér í sífellu upp úr því sem þeim finnst vera skrýtið orð eða nafn og flissa þá í leiðinni að þessu stórskrýtna tungumáli sem þau eru að uppgötva.

Þráhyggjuhegðun getur verið meðal annars í því formi að athafnir og hlutir þurfa alltaf að vera eins.  Flestir foreldrar kannast við einhvers konar "rútínur" hjá börnum sem tengjast t.d. háttatíma eða matartíma en hjá einhverfu börnunum getur þetta farið út í algjörar öfgar og það er ekki hægt að fara út í bíl án þess að vera búinn að framkvæma furðulegustu athafnir eins og að hósta þrisvar, snúa húfunni tvisvar á höfðinu, strjúka bílnum að utan og setjast síðan öfugt í sætið.  Þráhyggjan getur líka komið fram í söfnunaráráttu eða óeðlilegum áhuga á einhverju viðfangsefni.  Áhugamálin geta verið óhefðbundin eins og heimilistæki, umferðarmerki eða dreifirit en þau geta líka verið mjög hefðbundin eins og áhugi fyrir ákveðnum leikföngum, kvikmyndum, fótboltaliðum eða ofurhetjum en munurinn felst þá í því hversu áhuginn verður yfirþyrmandi, barnið verður gersamlega gagntekið af áhugamálinu og fátt annað kemst að.  Stundum er sama áhugamálið við líði árum saman en önnur börn fara í gegnum fasa þar sem á skiptast ofuráhugi á t.d. jólasveinum, fótboltaliðum eða teiknimyndahetjum.  Þessi ofuráhugi getur reyndar orðið styrkleiki ef heppnin er með og lagni er beitt, þannig er t.d. skákíþróttin kjörin til að koma af stað "viðurkenndri dellu" sem getur bæði verið örvandi félagslega og ýtt undir námsgetu og færni. Hið sama má segja um hvers kyns íþrótta- eða tómstundadellu.  Mikilvægt er að hafa augun sífellt opin fyrir tækifærum til að hjálpa börnunum að læra. Að hafa gífurlegan áhuga á einhverju er auðvitað forsenda þess að læra nýja hluti svo hægt er að notfæra sér áhugamálið á uppbyggilegan hátt með því að skreyta t.d. heimadæmin með merki uppáhaldsfótboltaliðsins. En það þarf líka að fylgjast með því að rútínan eða þráhyggjan verði ekki hamlandi fyrir daglegt líf, því þá þarf að brjóta hana upp með einum eða öðrum (venjulega sársaukafullum) hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband