Frábærum fræðsludegi er lokið

 

Frábærum fræðsludegi er lokið, allt gekk upp eins og það átti að ganga, fallegur dagur og samgöngurnar í góðu lagi.

Á milli 60-65 manns mættu á fundinn sem er hreint út sagt ótrúlega góð mæting. Þannig að segja má að það hafi verið fullt út úr dyrum í Kiwanis.  Fundargestir  voru úr ýmsum áttum, ýmist aðstandendur og ættingjar eða fagfólk s.s. kennarar og í sumum tilvikum fagfólk sem jafnframt eru aðstandendur!

Dagskráin hófst með ávarpi foreldris en Guðrún Jónsdóttir formaður Einhugar ræddi um tilurð félagsins og talaði um reynslu foreldranna í Einhugi af því að ala upp börn með einhverfurófsröskun. 

Þá tók Sigrún Birgisdóttir frá Umsjónarfélagi einhverfra við. Hún kynnti félagið og stefnumál þess og þjónustu. Ennfremur var Sigrún með úrval af bókum bæði til útláns og sölu og færði hún Einhugi veglega gjöf, allmargar bækur og dvd disk til eignar og notkunar fyrir félagsmenn. Færum við Sigrúnu og Umsjónarfélaginu enn á ný bestu þakkir fyrir okkur.

Að loknu stuttu kaffihléi tók Sigurrós Jóhannsdóttir sálfræðingur frá Greiningarstöðinni við og talaði um einhverfurófsraskanir m.a. út frá sjónarhóli greiningaraðilanna, s.s. um greiningarviðmið einhverfu og fjölda greininga. 

Boðið var upp á súpu frá Einsa kalda og brauðveislu frá Arnóri í hádeginu og að hádegishléinu loknu talaði Laufey Gunnarsdóttir þroskaþjálfi og einhverfurráðgjafi um einhverfurófsraskanir, sérstaklega þær sem eru á vægari kantinum s.s. Asperger. Umfjöllun Laufeyjar snerist m.a. um þörf einhverfra barna fyrir þjálfun í félagsfærni og nauðsyn þess að skólakerfið bregðist við þessari þörf.

Í lokin voru góðar umræður og var fundinum lokið á milli kl. 15.00-15.30.  Margir skráðu sig sem styrktaraðila félagsins og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.  Ennfremur kynntum við nýja bæklinginn okkar sem var að koma úr prentun.

Til stendur að birta erindi/glærur fyrirlesaranna hér á síðunni mjög fljótlega. 

Við þökkum kærlega fyrir frábæra mætingu og notalega stund í Kiwanis og vonum að framhald verði á góðum umræðum um þessi málefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband